Þekktir vindlaáhugamenn

FORSETAR OG VINDLAR

Aðeins tæpar tvær vikur eru nú til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Kosið verður þriðjudaginn 3. nóvember næstkomandi. Fylgiskannanir virðast benda til þess að Joe Biden hafi talsvert forskot á Donald Trump. Það var reyndar margt í þeim efnum sem virtist benda til þess að Hillary Clinton yrði kjörin forseti Bandaríkjanna árið 2016.

Hillary Clinton bannaði allar reykingar í Hvíta húsinu þegar eiginmaður hennar, Bill Clinton varð forseti og fjölskyldan flutti þangað inn. Öskubakkar voru fjarlægðir og reykingar bannaðar með öllu. Menn sátu við skrifborðin sín og nöguðu kalda vindla til þess að lifa daginn af. Hún bannaði ekki bara vindlareykingar í híbýlum sínum í Hvíta húsinu heldur líka í öllum veislum. Hún bannaði þjóðarleiðtogum í opinberum heimsóknum að kveikja sér í vindli eftir matinn. Hillary rauf 196 ára gamalt samband vindla og Hvíta hússins.

Bill var reyndar þekktur fyrir að kunna að njóta góðs vindils og engar líkur á því að hann hafi stutt þessa ákvörðun eiginkonu sinnar. Bill hefur örugglega stolist til þess að kveikja sér í vindli á skrifstofunni sinni. Forsetatíð Bill Clinton var reyndar kannski einum of vel þekktur fyrir óheppilega notkun vindla á skrifstofunni sinni. Vitnisburður Monicu Lewinsky um það sem gerðist þeirra á milli á einum af þeirra níu einkafundum bendir til þess að vindill hafi verið notaður til einhvers annars en reykinga.

Margir forsetar Bandaríkjanna nutu vindlareykinga. Sagan segir að John F. Kennedy hafi sent fjölmiðlafulltrúa sinn til þess að finna eins marga H. Upmann Petit Coronas og hann gæti – og það undir eins. Fjölmiðlafulltrúanum tókst að finna 1.200 vindla en skömmu síðar staðfesti Kennedy viðskiptabann á Kúbu.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru sem fyrr segir eftir tæpar tvær vikur. Corona Cigar Company í Flórída í Bandaríkjunum hefur til sölu vindla sem eru annars vegar merktir Donald Trump og hins vegar Joe Biden. Boðið er upp á Biden 2020 Toro (6×52) vindil og Trump 2020 Victory Toro (6×50). Corona Cigar Company heldur svo utan um alla verslun með þessa vindla og birtir daglega uppfærslu á sölutölum. Ef eitthvað er að marka þessa hávísindalegu fylgiskönnun verður Trump endurkjörinn forseti Bandaríkjanna með 82% atkvæða. 

Leave a Reply